Félagssamningur

1. gr. Nafn, heimili og varnarþing

Nafn félagsins er Alþjóðlegar bifreiðatryggingar á Íslandi, skammstafað ABÍ. Heimili þess, skrifstofa og varnarþing er í Reykjavík. Heiti félagsins á ensku er „International Motor Insurance in Iceland“.

2. gr. Félagaform

Félagið er sameignarfélag í eigu vátryggingafélaga sem hafa starfsleyfi í greinaflokki ábyrgðartrygginga ökutækja á Íslandi og er gert að starfrækja lögum samkvæmt eins og nánar er tilgreint í samningi þessum.

Félagið er sjálfstæður skattaaðili.

3. gr. Hlutverk

Hlutverk ABÍ er:

  1. Að gegna hlutverki tjónsuppgjörsmiðstöðvar og upplýsingamiðstöðvar í samræmi við lög og reglugerðir um ökutækjatryggingar.
  2. Að ábyrgjast og annast uppgjör tjóna af völdum óþekktra og óvátryggðra ökutækja í samræmi við lög og reglugerðir um ökutækjatryggingar.
  3. Að sjá íslenskum bifreiðatryggingafélögum fyrir alþjóðlegum vátryggingakortum fyrir ökutæki og ábyrgjast skuldbindingar vegna aksturs íslenskra ökutækja í ríkjum sem aðild eiga að samstarfi um græna kortið.
  4. Að gera upp tjón, sem ökutæki, er skráð eru erlendis en eru notuð hér á landi um stundarsakir, kunna að valda. Þetta gildir einungis um ökutæki sem koma frá ríkjum sem eiga aðild að græna kortinu.
  5. Að eiga aðild að og taka þátt í alþjóðlegu samstarfi sem landsskrifstofa á vegum „Council of Bureaux“ (CoB).
  6. Að koma fram fyrir hönd aðildarfélaganna gagnvart stjórnvöldum, innlendum og erlendum aðilum í þeim málum, sem tengjast starfsemi ABÍ.
  7. Að reka gagnabanka ökutækjatrygginga (bílabanka).
  8. Að sinna annarri starfsemi sem leiðir að lögum hverju sinni.

4. gr. Aðild

Vátryggingafélög, sem heimild hafa til að taka að sér lögmælta ábyrgðartryggingu ökutækja hér á landi, ber skylda til að vera aðilar að ABÍ. Eignarhluti aðila í ABÍ skal vera jafn.   

Vátryggingafélag með starfsleyfi í greinaflokki ábyrgðartrygginga ökutækja öðlast aðild að ABÍ þegar það hefur undirgengist skyldur skv. samningi þessum, greitt stofnfé og hlutfall af árlegum rekstrarkostnaði frá inngöngudagsetningu.

Aðilar að ABÍ eru:

Sjóvá-Almennar tryggingar hf.   kt. 650909-1270             Kringlan 5          103 Reykjavík  

TM tryggingar hf.                      kt. 660269-3399             Síðumúli 24       108 Reykjavík  

Vátryggingafélag Íslands hf.      kt. 690689-2009             Ármúli 3            108 Reykjavík  

Vörður tryggingar hf.                kt. 441099-3399             Borgartún 19     105 Reykjavík  

5. gr. Ábyrgð á skuldbindingum félagsins

Hvert aðildarfélag ber beina, óskipta og ótakmarkaða ábyrgð á skuldbindingum ABÍ nema annað leiði af lögum eða samningi þessum.

Innbyrðis skipting tjónakostnaðar milli aðildarfélaga vegna tjóna af völdum óþekktra og óvátryggðra ökutækja skal vera í hlutfalli við bókfærð iðgjöld í lögmæltum ábyrgðartryggingum ökutækja. Miðað skal við næsta almanaksár fyrir tjónsatburð. Fyrirframgreiðslu má á sama hátt krefja frá aðildarfélögum, hafi ABÍ ekki nægt fé í sjóði. Endurgreiðslur til aðildarfélaga skulu lúta sömu reglum.

Hvert aðildarfélag ber eitt ábyrgð á skuldbindingum samkvæmt eigin vátryggingarsamningum. Hafi ABÍ þurft að inna af hendi greiðslur vegna gildandi vátryggingarsamnings hjá aðildarfélagi ber því að endurgreiða þá fjárhæð að fullu innan 15 daga frá því að ABÍ fer fram á endurgreiðslu.

Rekstrarkostnaði af starfsemi ABÍ samkvæmt fjárhagsáætlun hvers árs skal skipt þannig að helmingur skiptist jafnt milli allra aðildarfélaga og helmingur í hlutfalli við bókfærð iðgjöld í lögmæltum ábyrgðartryggingum ökutækja. Miðað skal við næsta almanaksár fyrir yfirstandandi reikningsár.

6. gr. Ársreikningur og fjárhagsáætlun

Reikningsár ABÍ er almanaksárið. Stjórn skal láta semja ársreikning fyrir hvert reikningsár. Stjórn ABÍ afgreiðir fjárhagsáætlun fyrir yfirstandandi reikningsár.

Heimilt er aðalfundi að ákveða að aðildarfélögum skuli greiddur út hluti af hagnaði af rekstri í samræmi við bókfærð iðgjöld í lögmæltum ábyrgðartryggingum ökutækja miðað við næsta almanaksár fyrir yfirstandandi reikningsár.

7. gr. Lok aðildar

Ef aðildarfélag stendur ekki í skilum með greiðslur vegna stofnframlags, tjóna- og rekstrarkostnaðar eða endurkröfur skv. 3. mgr. 5. gr. þessa samnings skal því þegar í stað vikið úr ABÍ og það tilkynnt til eftirlitsaðila.

Falli starfsleyfi aðildarfélags í greinaflokki lögmæltra ábyrgðartrygginga ökutækja úr gildi, fellur aðild þess að ABÍ niður þegar í stað.

Hafi aðildarfélagi verið vikið úr ABÍ eða starfsleyfi þess fellt niður telst það óvirkt aðildarfélag. Óvirkt aðildarfélag ber áfram ábyrgð á þeim skuldbindingum sem stofnað var til meðan starfsleyfi þess var enn í gildi sbr. 5. gr. Óvirkt aðildarfélag nýtur engra réttinda aðildar svo sem þátttöku í félags- og stjórnarfundum.

Við lok aðildar skal stjórn gera samkomulag um fjárskipti við viðkomandi aðildarfélag innan 3 mánaða frá því að starfleyfi þess féll niður. Skal stjórn heimilt að krefjast trygginga fyrir efndum á skuldbindingum ef þörf krefur. 

8. gr. Félagsfundir

Félagsfundir skulu haldnir svo oft sem stjórn telur ástæðu til. Boðað skal til félagsfundar innan sjö daga komi fram ósk um það frá einum stjórnarmanna eða aðildarfélagi.

Félagsfundur skal boðaður með sannanlegum hætti með a.m.k. þriggja daga fyrirvara. Í fundarboði skal tilgreina dagskrá og þær tillögur sem leggja á fram á fundi. Fundur telst lögmætur sé boðað til hans með lögmætum hætti. Stjórn getur ákveðið að fundur svo og atkvæðagreiðsla sé með rafrænum hætti.

Hvert aðildarfélag hefur eitt atkvæði á félagsfundi. Afl atkvæða ræður úrslitum.

9. gr. Aðalfundur

Aðalfundur ABÍ fer með æðsta vald í málefnum félagsins. Hann skal haldinn fyrir 15. júní ár hvert. Aðalfundur skal boðaður af framkvæmdastjóra með sannanlegum hætti með a.m.k. sjö daga fyrirvara.

Á aðalfundi skulu tekin fyrir þessi mál:

  1. Skýrsla stjórnar fyrir liðið starfsár.
  2. Reikningar bornir upp til samþykktar.
  3. Kosning stjórnar.
  4. Kosning endurskoðanda.
  5. Ákvörðun um fjárframlög af hendi aðildarfélaga fyrir yfirstandandi reikningsár.
  6. Önnur mál.

10. gr. Stjórn ABÍ

Stjórn ABÍ skipa fjórir fulltrúar aðildarfélaga sem kjörnir skulu á aðalfundi ABÍ til tveggja ára í senn. Stjórn velur sér formann og skiptir að öðru leyti með sér verkum.

Stjórn hefur yfirumsjón með rekstri ABÍ og ræður framkvæmdastjóra sem hafi með höndum daglegan rekstur og veitir honum venjulegt prókúruumboð.

Framkvæmdastjóri boðar til stjórnarfunda í umboði formanns. Stjórnarfundir eru lögmætir ef mættir eru meirihluti stjórnarmanna. Fjarþátttaka einstakra stjórnarmanna á stjórnarfundum er heimil með samþykki stjórnar. Við afgreiðslu mála á stjórnarfundum fer hver stjórnarmaður með eitt atkvæði og ræður einfaldur meirihluti atkvæða. Ef atkvæði falla að jöfnu ræður atkvæði formanns.

Framkvæmdastjóri heldur fundargerð um stjórnarfundi sem staðfest skal af stjórn.

11. gr. Breytingar á félagssamningi

Samningi þessum má breyta á aðalfundi eða öðrum félagsfundi sem boðaður er með lögmætum hætti. Geta skal þess í fundarboði ef tillögur koma fram um breytingar á samningi. Breytingar verða aðeins gildar að þær hljóti atkvæði aðildarfélaga sem ráða yfir 2/3 markaðshlutdeildar miðað við bókfærð iðgjöld í lögmæltum ábyrgðartryggingum ökutækja á næstliðnu ári. Breytingar á tilgreiningu aðildarfélaga í 4. gr. skulu gerðar án atkvæðagreiðslu. 

12. gr. Félagsslit

Verði ABÍ lagt niður skal skipta eignum þess á milli aðildarfélaga þannig að hver beri jafnt úr býtum.

Þannig samþykkt á aðalfundi Alþjóðlegra bifreiðatrygginga á Íslandi í Reykjavík 30. mars 2022

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica