Úr reglugerð og lögum um tjónsuppgjörsmiðstöð

Í reglugerð nr. 1244/2019 er að finna reglur um tjónsuppgjörsmiðstöð og starfsemi hennar.

16. gr.

Tjónsuppgjörsmiðstöð.

Alþjóðlegar bifreiðartryggingar á Íslandi sf. (ABÍ) eru tjónsuppgjörsmiðstöð á Íslandi. ABÍ er óheimilt að gegna starfi tjónsuppgjörsfulltrúa fyrir erlent vátryggingafélag.

17. gr.

Skaðabótakröfur.

Tjónþoli, sem er búsettur hér á landi getur beint skaðabótakröfu að ABÍ sem tjónsuppgjörs­miðstöð vegna tjóns skv. 1. mgr. 17. gr. laga um ökutækjatryggingar ef erlent vátryggingafélag tjón­valds eða tjónsuppgjörsfulltrúi þess hér á landi hefur ekki gert rökstutt tilboð eða gefið rökstutt svar innan þriggja mánaða frá því að tjónþoli krafði vátryggingafélagið eða tjónsuppgjörsfulltrúann um bætur skv. 1. og 2. mgr. 13. gr.

Tjónþoli skv. 1. mgr. getur einnig krafið ABÍ sem tjónsuppgjörsmiðstöð um bætur ef vátrygg­ingafélag tjónvalds hefur ekki tilnefnt tjónsuppgjörsfulltrúa á Íslandi. Tjónþoli getur þó ekki haft uppi skaðabótakröfu gagnvart ABÍ skv. 1. málsl., ef hann hefur beint kröfu að vátryggingafélagi tjón­valds og fengið rökstutt svar við henni innan þriggja mánaða.

Tjónþoli getur ekki haft uppi skaðabótakröfu gagnvart ABÍ skv. 1. eða 2. mgr. ef hann hefur höfðað mál gegn vátryggingafélagi tjónvalds.

ABÍ skal taka bótakröfu til afgreiðslu innan tveggja mánaða eftir að hún barst frá tjónþola. ABÍ skal ljúka meðferð kröfunnar ef vátryggingafélag tjónvalds eða tjónsuppgjörsfulltrúi þess gefur tjón­þola rökstutt svar við kröfunni.

Þegar ABÍ móttekur skaðabótakröfu skal það tilkynna vátryggingafélagi tjónvalds eða tjóns­uppgjörs­fulltrúanum hér á landi, tjónsuppgjörsmiðstöðinni í aðildarríki þar sem vátryggingafélagið, sem gaf út vátryggingarskírteinið, hefur staðfestu og tjónvaldi, ef vitað er um hann, að tjónþoli hafi krafið ABÍ um bætur og að ABÍ muni svara kröfunni innan tveggja mánaða frá því hún barst.

18. gr.

Endurgreiðsla, endurkrafa og kröfuhafaskipti.

Tjónsuppgjörsmiðstöð í öðru aðildarríki sem hefur greitt bætur til tjónþola sem búsettur er í því aðildarríki, getur krafist þess að ABÍ endurgreiði bæturnar, ef:

  1. vátryggingafélag hér á landi hefur gefið út vátryggingarskírteini fyrir ökutækið sem tjónið hlaust af,
  2. ökutækið sem tjónið hlaust af er að jafnaði staðsett hér á landi.

Tjónsuppgjörsmiðstöð í öðru aðildarríki sem hefur greitt bætur til tjónþola búsetts hér á landi getur krafist þess að ABÍ endurgreiði bæturnar, ef:

  1. ökutæki er að öllu jöfnu staðsett hér á landi og ekki er vitað um vátryggingafélag þess,
  2. ökutæki er óþekkt og tjónsatvikið var hér á landi.
  3. ökutæki er að öllu jöfnu staðsett í ríki utan aðildarríkja og það ríki er aðili að tilhöguninni um græna kortið.

ABÍ getur krafist endurgreiðslu frá tjónsuppgjörsmiðstöð í öðru aðildarríki ef skilyrði 1. og 2. mgr. eiga við að breyttu breytanda.

Í samningi tjónsuppgjörsmiðstöðva skulu vera nánari reglur um framkvæmd endurgreiðslna í skiptum ABÍ og tjónsuppgjörsmiðstöðva og ábyrgðaraðila í öðrum aðildarríkjum.

ABÍ öðlast rétt tjónþola á hendur tjónvaldi eða vátryggingafélagi hans að svo miklu leyti sem tjónsuppgjörsmiðstöðin í því aðildarríki, þar sem tjónþoli býr, hefur greitt honum bætur, enda hafi ABÍ endurgreitt tjónsuppgjörsmiðstöðinni bæturnar í samræmi við samning skv. 3. mgr.


Úr lögum um ökutækjatryggingar 

Í lögum nr. 30/2019 er að finna reglur um tjónsuppgjörsmiðstöð og starfsemi hennar.

Tjónsuppgjörsmiðstöð: 

Lögaðili sem getur greitt bætur vegna tjóns af völdum vélknúins ökutækis við ákveðin skilyrði.

15. gr.

Tjón af völdum óþekktra eða óvátryggðra ökutækja.

  • Tjónsuppgjörsmiðstöð skal greiða tjónþola bætur fyrir líkamsáverka eða missi framfæranda vegna slyss hér á landi ef ætla má að tjónið hafi hlotist af notkun óþekkts ökutækis. Séu greiddar bætur fyrir líkamstjón skal jafnframt greiða bætur fyrir munatjón vegna sama tjónsatviks.
  • Tjónsuppgjörsmiðstöð skal greiða tjónþola bætur vegna tjónsatviks sem hlotist hefur hér á landi af notkun ökutækis sem engin ábyrgðartrygging hefur verið keypt fyrir eða vátrygging þess hefur verið felld niður af vátryggingafélagi eða ekki haldið í gildi.
  • Bætur skv. 1. og 2. mgr. greiðast allt að þeirri vátryggingarfjárhæð sem er ákveðin í lögum þessum.
  • Bætur skv. 1. og 2. mgr. greiðast ekki ef tjónsuppgjörsmiðstöð sýnir fram á að tjónþoli hafi vitað að ökutæki sem tjón hlýst af, og sem hann af fúsum vilja hefur tekið sér far í, hafi verið óvátryggt er tjónsatvikið varð. Sama á við um tjón á munum sem fluttir eru með ökutæki hafi eigandi eða sendandi þeirra vitað að það hafi verið óvátryggt. Skaðabætur eftir ákvæðum þessum skal ekki heldur greiða til að fullnægja endurkröfu frá þriðja manni.
  • Tjónsuppgjörsmiðstöð bætir ekki tjón er ætla má að sé af völdum ökutækis sem undanþegið er vátryggingarskyldu og er í eigu ríkissjóðs Íslands, erlends ríkis eða alþjóðastofnunar. Ábyrgð á slíkum kröfum fer skv. 4. mgr. 10. gr.
  • Tjónsuppgjörsmiðstöð á endurkröfurétt samkvæmt almennum reglum íslensks réttar á hendur þeim sem bera skaðabótaábyrgð á tjóni af völdum óvátryggðs ökutækis, þ.m.t. eiganda og ökumanni. Sama á við hafi félagið greitt bætur fyrir tjón af völdum óþekkts ökutækis, ef síðar upplýsist um það. Í því tilviki á félagið einnig endurkröfurétt á hendur vátryggjanda ökutækisins. Ákvæði þessarar málsgreinar hagga ekki reglum um kröfur samkvæmt öðrum endurkröfuheimildum.

16. gr.

Tímabundin notkun erlendra ökutækja.

  •  Tjónsuppgjörsmiðstöð skal greiða skaðabætur vegna tjóns af völdum óvátryggðs erlends ökutækis sem um stundarsakir er notað hér á landi án þess að vera skráð hér.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica